„Þetta er gleði og léttir“

Ólafur Ingi Skúlason.
Ólafur Ingi Skúlason. Ljósmynd/Víkurfréttir

Ólafur Ingi Skúlason, fyrirliði Fylkis, var að vonum kampakátur eftir að ljóst var að Fylkir mun leika í deild þeirra bestu að ári en liðið gerði 1:1 jafntefli við KR á Alvogen-vellinum í dag í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

„Þetta er gleði og léttir. Þetta er búið að vera langt og strangt tímabil. Það er erfitt að vera nýliðar og koma upp í svona deild. Sérstaklega varðandi heimavallarmál. Vorum í Egilshöllinni í því ævintýri lengi vel en erum komnir loksins á eigin völl og það var bara svo mikið undir fyrir félagið. Félagið var búið að spýta í og byggja upp þessa aðstöðu og þess vegna var svo mikilvægt fyrir okkur að halda okkur í deild þeirra bestu.“

Fylkir lagði upp með að liggja til baka gegn KR og gefa fá tækifæri á sér en beita síðan skyndiupphlaupum þegar liðið vann boltann. Ólafur sagði að þetta leikplan hafi gengið vel upp í fyrri hálfleik:

„Mér fannst við mæta þeim vel í fyrri hálfleik. Við sköpum okkur 100% tækifæri þegar Elís skýtur yfir. Þeir sköpuðu sér ekkert. Mér fannst leikplanið okkar virka fullkomlega. Þeir fengu þetta mark upp úr engu. Boltinn hrökk af mér og inn fyrir og hann kláraði þetta vel strákurinn. Mér fannst við sýna frábæran karakter. Strákarnir eiga mikið hrós skilið. Við stigum upp og pressuðum þá og uppskárum mark sem við áttum skilið. Maður sá það á báðum liðum að það var mikið undir. Þeir að berjast um Evrópusæti og við að halda okkur í deildinni. Þetta var baráttuleikur og tilfinningar og það er bara allt og blessað og eins og það á að vera.“

Spurður hvort leikmenn Fylkis myndu fagna öruggu sæti í efstu deild að ári í kvöld sagði Ólafur svo vera:

„Það er vinna hjá mönnum á morgun en það verða einhverjir bjórar drukknir og eitthvað sungið. Það er bara eðlilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert