Jón Þór segir skilið við 3-4-3

Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, ásamt aðstoðarmanni sínum Ian …
Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, ásamt aðstoðarmanni sínum Ian Jeffs. mbl.is//Hari

Jón Þór Hauksson þreytir frumraun sína með íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu á morgun þegar liðið mætir Skotlandi í vináttuleik á La Manga á Spáni. Jón Þór var ráðinn þjálfari kvennalandsliðsins 22. október síðastliðinn og er þetta fyrsti leikur hans með liðið síðan hann tók við.

„Ég er mjög spenntur fyrir leiknum á morgun. Liðið er á flottum stað, það er góður andi í hópnum, og æfingarnar hafa gengið mjög vel. Við erum búin að skoða skoska liðið vel að undanförnu og ég tel okkur vera vel undirbúin fyrir leikinn á morgun,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is.

Jón Þór hefur valið byrjunarliðið fyrir leikinn á morgun og ætlar sér að færa liðið aftur í 4-2-3-1 leikkerfið en liðið hefur spilaði leikkerfið 3-4-3 undir stjórn Freys Alexanderssonar undanfarin tvö ár.

Sara Björk Gunnarsdóttir er fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins en hún á …
Sara Björk Gunnarsdóttir er fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins en hún á að baki 120 landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Eggert

Þurfa að fylgja settum reglum

„Byrjunarliðið er klárt og við munum spila 4-2-3-1 á morgun og vinna okkur svo út frá því. Heilt yfir þá er ég sáttur með leikformið sem stelpurnar eru í. Það eru margir leikmenn í hópnum sem eru að hefja sitt undirbúningstímabil. Eins erum við með leikmenn sem eru að hefja sinn feril hjá nýju félagsliði en stelpurnar eru með frábært viðhorf og ég er bara nokkur brattur fyrir þennan fyrsta leik minn við stjórnvölinn. Þetta er alþjóðlegur leikdagur og við þurfum að spila eftir þeim reglum. Við fáum sex skiptingar í leiknum og það er alveg ljóst að það munu margir  sterkir leikmenn byrja á bekknum á morgun en að sama skapi verðum við með marga frábæra leikmenn, tilbúna að koma inn af bekknum, á morgun. Það hefði verið gaman að geta gefið öllum leikmönnum í hópnum tækifæri á morgun en því miður þá er það ekki í boði.“

Jón Þór er mjög ánægður með hópinn og segir marga leiðtoga vera í liðinu. Þá er hann ánægður með ungu leikmennina í hópnum og segir blönduna í liðinu vera góða fyrir framtíðina.

Alexandra Jóhannsdóttir er í hópnum en hún á eftir að …
Alexandra Jóhannsdóttir er í hópnum en hún á eftir að spila sinn fyrsta landsleik fyrir A-landslið Íslands. mbl.is/Hari

Þéttur og góður hópur

„Þetta er mjög þéttur hópur sem býr yfir miklum gæðum, knattspyrnulega séð. Það er mikil reynsla í liðinu og það er fullt af leiðtogum í liðinu sem gerir starf mitt mun skemmtilegra. Það er virkilega gaman að vinna með þessum stelpum og á sama tíma erum við mjög unga leikmenn líka í hópnum sem hafa ekki spilað landsleik áður. Blandan er því mjög góð og holningin á hópnum er með besta hópi. Hvort þetta verði hópurinn sem hefur leik í lokakeppni EM í haust þarf að koma betur í ljós en ég vonast eftir ákveðnum svörum frá leikmönnunum á morgun gegn Skotum,“ sagði Jón Þór Hauksson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert