Kári og Gísli spila ekki á mánudaginn

Kári Árnason.
Kári Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Árnason og Gísli Eyjólfsson munu ekki spila með liðum sínum í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu á mánudaginn eins og vonir stóðu til en þetta kemur fram á netmiðlinum fótbolti.net.

Kári gekk í raðir Víkings frá tyrkneska liðinu Genclerbirligi í síðustu viku og Gísli sneri aftur til Blikanna í gær frá sænska liðinu Mjällby þar sem hann var í láni. Félagaskiptaglugginn opnast mánudaginn 1. júlí en þann dag mætir Víkingur liði ÍA og Breiðablik sækir KR-inga heim í toppslag Pepsi Max-deildarinnar.

„Þegar kemur að félagaskiptum leikmanna erlendis frá í gegnum FIFA TMS-kerfið, þá eru engar aðgerðir af okkar hálfu opnar fyrr en 1. júlí, þ.e. þegar glugginn opnar. Það þýðir að ekki er hægt að gefa út leikheimild fyrr en í fyrsta lagi 2. júlí en til þess að leikmaður geti fengið leikheimild 2. júlí þá þurfa félagaskiptin að hafa borist okkur erlendis frá 1. júlí. Þetta er í takt við grein 15.3. í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga,“ segir Haukur Hinriksson, lögfræðingur KSÍ, í samtali við fótbolti.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert