„Gaman að horfa á þetta“

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari meistaraflokks, býður Kelsey Wys velkomna á …
Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari meistaraflokks, býður Kelsey Wys velkomna á Selfoss en hún átti góðan leik í marki liðsins í kvöld. Ljósmynd/Selfoss

„Mér fannst við vera betri aðilinn í báðum hálfleikjunum en í stöðunni 1:0 ver markmaðurinn okkar frábærlega þannig að Stjarnan hefði alveg getað komist inn í leikinn. Nú erum við búnar að spila fjóra og hálfan leik án þess að fá mark á okkur og við erum ótrúlega ánægðar með það,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir sannfærandi sigur 3:0 sigur á Stjörnunni í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Selfossliðið hefur verið á miklu skriði að undanförnu og Alfreð er sammála því að árangurinn byggist á góðum varnarleik.

„Alveg klárlega, en líka samheldninni í hópnum, öllum hópnum, ekki bara byrjunarliðinu og ekki bara leikmönnunum heldur stjórninni og öllum í kringum liðið. Við erum í þessu til þess að gera þetta að eftirminnilegu sumri,“ segir Alfreð og bætir við að sjálfstraustið í liðinu sé mikið.

„Það er dálítið langt síðan við höfum haft svona mikið sjálfstraust og þegar það kemur og þegar við erum að spila svona bolta, fullt af færum, þá er gaman að horfa á þetta. Við erum að nota sjálfstraustið og það sýnir sig í leik liðsins. Sóknarleikurinn í seinni hálfleik er með því betra sem við höfum sýnt í sumar en við vorum líka frábærar í vörninni og það var góður heildarbragur á þessu,“ sagði Alfreð að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert