„Valdi ekki Öglu Maríu í þetta skiptið“

Agla María Albertsdóttir er ekki í landsliðshópnum að þessu sinni.
Agla María Albertsdóttir er ekki í landsliðshópnum að þessu sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, viðurkennir að margir leikmenn sem hafi ekki verið valdir í leikmannahópinn að þessu sinni hafi gert tilkall til þess að vera í hópnum.

„Það var alveg skemmtilegt að kljást við þetta að sumu leyti. Að öðru leyti var það ekki skemmtilegt vegna þess að leikmenn eru frá vegna meiðsla.

Það voru raunverulega margir möguleikar í stöðunni og einhverjir aðrir leikmenn sem gerðu tilkall til að koma inn í hópinn hjá okkur. Þetta var alveg krefjandi og skemmtilegt,“ sagði Þorsteinn á fréttamannafundi í dag um hvernig hafi gengið að velja hópinn.

Jákvæður hausverkur fyrir þjálfara

Sex leikmenn af 23 manna leikmannahópnum spila í Bestu deildinni. Spurður hvort fleiri leikmenn í Bestu deildinni hafi gert tilkall til að vera í deildinni sagði hann:

„Mér finnst deildin hafa farið vel af stað. Leikirnir hafa heilt yfir verið skemmtilegir. Það er margt jákvætt í leikjum þetta sumarið.

Byrjunin hefur verið öðruvísi heldur en til dæmis í fyrrasumar þar sem deildin var mjög róleg í byrjun. Mér fannst vera margir daufir leikir í fyrra en núna finnst mér hún skemmtilegri heilt yfir.

Það eru margir leikmenn sem hafa spilað vel og hafa alveg gert tilkall til að vera kallaðir inn í hópinn, sem er jákvæður hausverkur fyrir þjálfara. Það er það sem ég vil sjá, að það séu möguleikar í stöðunni fyrir okkur, að leikmenn séu að ýta við manni.“

Ekkert annað um það að segja

Þorsteinn var þá spurður nánar út í tiltekna leikmenn á við Öglu Maríu Albertsdóttur, Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur og Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur.

„Ég skoðaði þetta náttúrlega allt saman. Ég valdi ekki Öglu Maríu. Vigdís Lilja er búin að standa sig vel og vonandi heldur hún því bara áfram. Berglind þarf að koma sér almennilega í gang áður en hún á einhvern möguleika á því að komast í hópinn.

Hún þarf að spila reglulega og koma sér í gott stand til að gera tilkall. Þá kannski hringi ég í hana en ég ætla að vona að hún sé ekki bíðandi við símann.

Það er auðvitað hvatning fyrir leikmenn að vera valdir í landsliðið en á bak við er alltaf vinna og á bak við þarftu að leggja mikið á þig til þess að komast í þennan hóp. Þannig viljum við hafa það,“ sagði Þorsteinn.

Hann var loks spurður nánar út í Öglu Maríu.

„Ég valdi bara aðra leikmenn, það er ekkert flóknara en það. Ég valdi hana ekki í þetta skiptið og það er raunverulega ekkert annað um það að segja,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert