ÍBV enn án stiga – fyrsti sigur Selfoss

Auður Helga Halldórsdóttir, sem skoraði tvívegis í kvöld, sækir að …
Auður Helga Halldórsdóttir, sem skoraði tvívegis í kvöld, sækir að marki ÍR með Önju Ísis Brown á hælum sér. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Grótta gerði frábæra ferð til Vestmannaeyja og lagði þar ÍBV að velli, 3:1, í þriðju umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Selfoss fékk ÍR í heimsókn og vann sinn fyrsta leik á tímabilinu, 3:1.

Grótta og Selfoss eru í efstu tveimur sætum deildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir, með fimm stig eftir þrjá leiki og nákvæmlega sömu markatölu, 7:5.

ÍBV, sem féll úr Bestu deildinni á síðasta tímabili líkt og Selfoss, er á botni deildarinnar án stiga. ÍR er í áttunda sæti með þrjú stig.

Í leik Gróttu og ÍBV komust gestirnir frá Seltjarnarnesi í 3:0.

Lovísa Davíðsdóttir Scheving skoraði tvívegis og Díana Ásta Guðmundsdóttir einu sinni áður en Olga Sevcova minnkaði muninn fyrir Eyjakonur í blálokin.

Í leik Selfoss og ÍR voru heimakonur komnar í 2:0 eftir aðeins 19 mínútna leik með tveimur mörkum frá Auði Helgu Halldórsdóttur.

Linda Eshun minnkaði muninn fyrir ÍR skömmu fyrir leikhlé áður en Katrín Ágústsdóttir innsiglaði sigur Selfyssinga með þriðja marki liðsins tíu mínútum fyrir leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert