María meiddist og Noregur í vanda

Belgía fagnar eftir að hafa komist yfir gegn svekktum leikmönnum …
Belgía fagnar eftir að hafa komist yfir gegn svekktum leikmönnum Noregs. AFP

Noregur er í vondum málum á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu eftir tap fyrir Belgíu, 2:0, í annarri umferð A-riðils keppninnar í dag. Noregur er án stiga í riðlinum en þetta var fyrsti sigur og jafnframt fyrstu mörk belgíska kvennalandsliðsins á lokamóti.

María Þórisdóttir átti að byrja leikinn fyrir Noreg en hún meiddist í upphitun og Ingrid Spord tók hennar stöðu, en henni var svo skipt af velli í hálfleik. Markalaust var í hálfleik en eftir hlé voru það Belgar sem skoruðu mörkin.

Elke Van Gorp kom Belgum yfir á 59. mínútu þegar hún fylgdi eftir vörðum skalla af stuttu færi, en í endursýningu sást greinilega að hún var rangstæð. Janice Caymen tvöfaldaði forskot Belga á 67. mínútu og róðurinn orðinn afar þungur fyrir Noreg.

Norska liðið sótti stíft það sem eftir lifði leiks og alls var rúmum sex mínútum bætt við venjulegan leiktíma. En varnarmúr Belga hélt velli, skilaði 2:0-sigri og þremur stigum að auki. Noregur er hins vegar án stiga eftir tap fyrir Hollandi í fyrstu umferðinni. 

Noregur verður nú að treysta á það að Holland vinni Danmörku í kvöld og Belgíu í lokaumferðinni. Þá verður Noregur jafnframt að vinna Dani í lokaleiknum. Ef svo færi verða Noregur, Danmörk og Belgía öll með þrjú stig og þar er það liðið með bestu markatöluna í innbyrðis leikjunum þeirra á milli tekur annað sætið.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. MARS

Útsláttarkeppnin