Allt opið í milliriðli EM fyrir kvöldið

Slóveninn Marko Bezjak laumar boltanum yfir Danann Rene Toft Hansen …
Slóveninn Marko Bezjak laumar boltanum yfir Danann Rene Toft Hansen á EM. AFP

Tveir leikir fara fram í milliriðli tvö á Evrópumótinu í handknattleik sem stendur sem hæst í Króatíu. Það er óhætt að segja að allt sé opið fyrir leiki kvöldsins.

Efstu tvö sætin tryggja sér sæti í undanúrslitum mótsins á meðan þriðja sætið spilar um fimmta sæti. Engin þjóð getur tryggt sér farseðilinn í undanúrslit í dag þar sem öll sex liðin eiga enn möguleika, en ekki eru nema fimm leikir eftir í riðlinum.

Í fyrri leik dagsins mætir Slóvenía liði Spánar. Slóvenía er aðeins með eitt stig í riðlinum á meðan Spánn hefur fjögur. Slóvenía verður því að vinna síðustu tvo leiki sína til þess að eiga möguleika til þess að komast áfram. Spánn getur hins vegar stigið stórt skref áfram með sigri.

Í hinum leiknum mætast Makedónía og Tékkland. Tékkar eru með tvö stig en Makedónía þrjú og sigurliðið mun því sennilega gera út um vonir andstæðingsins um frekari frama á EM.

Makedónía verður án Kiril Lazarov, sinnar skærustu stjörnu, en fréttir bárust af því í gær að hann væri úr leik það sem eftir lifir EM vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert