Wenger staðfestir komu Paulista

Gabriel Paulista skallar boltann með tilþrifum í leik gegn Atlético …
Gabriel Paulista skallar boltann með tilþrifum í leik gegn Atlético Madrid. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, staðfesti eftir sigur liðsins gegn Brighton í FA-bikarnum í dag að Brasilíumaðurinn Gabriel Paulista sé á leið til félagsins og að skiptin muni ganga í gegn á næsta sólarhring.

Hinn 24 ára gamli Paulista er varnarmaður og á mála hjá Villarreal á Spáni, en einungis á eftir að ganga frá atvinnuleyfi fyrir hann áður en kaupin ganga í gegn. Spænska liðið mun fá framherjann Joel Campbell sem sló eftirminnilega í gegn með Kostaríku á heimsmeistaramótinu í sumar á láni út tímabilið á móti.

„Samningar eru í höfn og ég býst við að við munum klára þetta á morgun“" sagði Wenger, en talið er að hann muni semja til langs tíma við Arsenal. Kaupverðið er sagt vera rúmlega 11 milljónir punda en Villarreal greiðir þó eitthvað fyrir lánssamning Campbells.

Paulista kom til Villarreal frá Vitoria í heimalandinu árið 2013 og hefur þá spilað 45 leiki fyrir þá gulklæddu. Hann hefur aldrei leikið landsleik fyrir Brasilíu, hvorki með yngri landsliðum né A-liði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert