Nýi Sterling á jörðinni

Jordan Ibe hefur staðið sig vel á fyrstu skrefum ferilsins …
Jordan Ibe hefur staðið sig vel á fyrstu skrefum ferilsins hjá Liverpool. AFP

Hinn 19 ára gamli Jordan Ibe kom inn af krafti í lok síðustu leiktíðar hjá Liverpool og hefur haldið áfram að heilla stuðningsmenn liðsins upp úr skónum á undirbúningstímabilinu. Ibe þykir afar efnilegur og margir eru þeirrar skoðunar að leikstíll hans svipi til Raheem Sterling, sem gekk í raðir Manchester City fyrr í sumar.

Ibe æfði aukalega í sumarfríinu sínu undir handleiðslu Kenny Dalglish, goðsagnarinnar hjá Liverpool, og segir að þær æfingar hafi hjálpað sér enn frekar. Hann er þó ekki sáttur og vill verða enn betri til þess að gera tilkall til byrjunarliðssætis á tímabilinu sem er handan við hornið.

„Ég er ekki fullkomlega sáttur því mér finnst ég þurfa að vinna í nokkrum hlutum,“ sagði auðmjúkur Ibe í samtali við opinbera vefsíðu Liverpool. „Ég vil klára færin mín betur sem og fyrirgjafirnar.“

„Ég gagnrýni sjálfan mig. Ég á það til að hugsa um hvað má betur fara eftir leiki. Tímabilið er að fara hefjast og ég þarf að halda áfram að verða betri til þess að spila reglulega í ensku deildinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert