Leikstíll Louis van Gaal grætir goðsögn

Louis van Gaal.
Louis van Gaal. AFP
Hollenski knattspyrnustjórinn Louis van Gaal, hefur fengið drjúgan skerf af gagnrýni fyrir leiðinlegan leikstíl Manchester United á leiktíðinni.

Roy Keene, Paul Scholes, Gary Neville Rio Ferdinand, Owen Hargreaves og Michael Owen hafa til að mynda gagnrýnt leikaðferð Hollendingsins sem byggi um of á stífum varnarleik, því að halda boltanum innan liðsins og skortur sé á sköpunargáfu í leik liðsins. 

Stuðningsmenn hafa einnig gert ákall um aukinn sóknarleik og hafa sungið söngva sem ætlaðir eru til hvatningar um aukið áræðni í sóknarleik reglulega í vetur.  

Nú hefur hollenska knattspyrnugoðsögnin Willem van Hanegem sem meðal annars lék með hollenska landsliðinu sem komst í úrslitaleik HM árið 1974 bæst í hóp gagnrýnenda Louis val Gaal.

“PSV Einhoven náði góðum úrslitum gegn Manchester United í síðustu viku og ég horfði á Manchester United spila við Leiceser City um helgina. Spilamennska Manchester United í þeim leik framkallaði tár á hvarma mér,“ sagði Willem van Hanegem í samtali við Daily Mirrror.

„Ef þú hefur tök á því að eyða 300 milljónum punda í leikmenn þá ættir þú ekki að enda með lið samansett að meðaljónum,“ sagði Willem van Hanegem enn fremur.   

„Van Gaal er góður þjálfari og nær góðum úrslitum og af þeim sökum er leikaðferð hans meðtekin. Líttu bara á hollenska liðið á heimsmeistaramótinu síðasta sumar. Kannski skiptir aðferð Van Gaal við að spila fótbolta ekki máli fyrir aðra svo lengi sem skilar stigum á töfluna.

Þar er ég hins vegar ósammála og tala þar sem knattspyrnuunnandi. Van Gaal tekur skemmtanagildið úr fótboltanum og það eru engir skapandi leikmenn eftir í leikmannahópi Manchester United sem er miður að mínu mati,“ sagði Willem van Hanegem um leikaðferð Manchester United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert