„Ekki vekja okkur“

Claudio Ranieri vill ekki láta vekja sig.
Claudio Ranieri vill ekki láta vekja sig. AFP

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Leicester City á Englandi, segist ekki finna fyrir pressu í ensku úrvalsdeildinni, en liðið situr í efsta sætinu með fimm stiga forskot þegar þrettán umferðir eru eftir.

Þetta hefur verið sannkallað öskubuskuævintýri hjá drengjunum hans Ranieri en þegar þessi orð eru skrifuð er liðið með 53 stig í efsta sæti deildarinnar. Liðið á þá tvo af markahæstu mönnum deildarinnar, þá Jamie Vardy og Riyad Mahrez.

Leicester mætir Arsenal á sunnudag í toppslag en Ranieri segist ekki finna fyrir pressunni. Hann vonast til þess að vakna ekki upp úr þessum frábæra draumi.

„Pressan er ekki á okkur heldur hinum liðunum. Það er meiri pressa á Arsenal þar sem félagið hefur eytt meiri peningum í leikmenn,“ sagði Ranieri.

„Af hverju á ég að finna fyrir pressunni? Við viljum halda áfram að dreyma ásamt stuðningsmönnunum svo í guðanna bænum ekki vekja okkur,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert