„Bökumaðurinn“ missti af leik

Shaw að úða í sig bökunni á hliðarlínunni.
Shaw að úða í sig bökunni á hliðarlínunni. Ljósmynd/twitter

Wayne Shaw komst heldur betur í fréttirnar í vikunni en þessi íturvaxni varamarkvörður Sutton United lét grípa sig í bólinu þegar hann úðaði í sig böku á varamannabekknum í leik liðsins gegn Arsenal í ensku bikarkeppninni.

Málið þótti strax grunsamlegt þegar í ljós kom að einhverjir veðbankar buðu upp á að veðja um það hvort Shaw fengi sér böku á meðan leiknum stóð og í kjölfar mikillar fjölmiðlaumræðu um atvikið óskuðu forráðamenn Sutton eftir því að Shaw hætti hjá félaginu og varð hann við beiðni þeirra.

Sutton mætti Torqay í utandeildinni í dag og eftir 16 mínútna leik meiddist Ross Worner markvörður Sutton og varð að yfirgefa völlinn. Shaw hefði leyst Worner af hólmi hefði hans notið við og þar sem Sutton var ekki með neinn varamarkvörð varð einn útileikmaður liðsins að fara í markið.

Engu að síður tókst Sutton að vinna 3:2 sigur í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert