Segja samning í höfn um kaup á Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Everton hafi náð samkomulagi við Swansea um kaup á Gylfa Þór Sigurðssyni fyrir 25 milljónir punda, 3,3 milljarða íslenskra króna.

Gylfi hefur verið sterklega orðaður við Everton síðustu vikurnar og forráðamenn liðsins eru sagðir vera búnir að ná samkomulagi um kaupin en það sem gæti staðið í vegi fyrir að Gylfi skrifi undir samning við Everton einn, tveir og þrír eru launakröfur hans að því er Mirror greinir frá.

Gylfi er sagður vilja fá 120 þúsund pund á viku í laun sem jafngildir 15,5 milljónum króna en laun hans hjá Swansea eru 80 þúsund pund á viku.

Gylfi átti frábært tímabil með Swansea en hann skoraði 9 mörk og lagði upp 13 og sópaði að sér verðlaunum á lokafhófi félagsins á dögunum þar sem hann var valinn leikmaður ársins bæði af leikmönnum og stuðningsmönnum.

Hann hefur á undanförnum vikum verið orðaður við önnur lið í ensku úrvalsdeildinni en vitað hefur verið af miklum áhuga hjá Newcastle, Southampton, West Ham og nú síðast Tottenham sem Gylfi yfirgaf fyrir þremur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert