Mourinho vill tvo í viðbót

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að David de Gea, markvörður liðsins, sé ekki á förum frá félaginu. Það sé einfaldlega ekki að fara að gerast.

De Gea hefur verið orðaður við Real Madrid í langan tíma og fyrir tveimur árum var kappinn afar nálægt því að ganga í raðir þeirra hvítklæddu. Annað er uppi á teningnum í dag.

„Ég get ábyrgst það að hann er ekki að fara fyrir þetta tímabil. Tilfinningin segir að það sé mjög erfitt fyrir hann að fara,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi í Bandaríkjunum á vef Sky Sports.

„Hann er heiðarlegur drengur, mjög hreinn og beinn. Þeir (forráðamenn Real Madrid) ræddu við hann fyrir löngu síðan. En þá lokaði klúbburinn á þetta en opnaði á það á ný. Það er mín tilfinning að þegar leikmenn vilja fara þá vil ég ekki stöðva þá, þar sem þegar allt kemur til alls, þá getur þú ekki fengið það sem þú býst við frá þeim ef svo ber undir,“ sagði Mourinho.

„Hans (De Gea) tilfinning fyrir þessu er mjög góð. Ég er ánægður með það og er 100% á því að hann verði áfram hjá okkur,“ sagði Mourinho.

Mourinho segist vera ánægður með sinn hóp eins og er en vonast til þess að liðið kaupi fjóra leikmenn í sumar. Að minnsta kosti þrjá, en liðið hefur fengið í sínar raðir þá Victor Lindelof frá Benfica og Romelu Lukaku frá Everton.

„Ef félagið á ekki möguleika á því að fá fjóra leikmenn þá verður það að vera svo. Ég er ánægður með hópinn. En ég vona að við getum fengið þriðja leikmanninn. Hver veit með þann fjórða? En að minnsta kosti þrjá,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert