Kane myndi kosta yfir 30 milljarða

Harry Kane hefur farið á kostum með Tottenham síðustu ár.
Harry Kane hefur farið á kostum með Tottenham síðustu ár. AFP

Það þyrfti heimsmet til að festa kaup á enska landsliðsframherjanum Harry Kane frá Tottenham, samkvæmt Florentino Perez, forseti Real Madrid.

Kane er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð með átta mörk og hefur alls skorað 13 mörk í 12 leikjum á þessari leiktíð. Orðrómur hefur verið uppi um að hann gæti fetað í fótspor Luka Modric og Gareth Bale sem báðir hafa farið frá Tottenham til Real Madrid. Real greiddi 100 milljónir evra fyrir Bale árið 2013 en Perez telur þurfa 250 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 31 milljarðs króna, til að fá Kane:

„Ég tel að hann sé stórkostlegur leikmaður og þar að auki er hann ungur og getur enn bætt sig á komandi árum,“ sagði Perez við spænsku útvarpsstöðina Cadena Cope eftir FIFA-verðlaunahátíðina í gær. Aðspurður hvort hann hefði spurst fyrir um verðmiðann á Kane svaraði Perez:

„Nei, því ég veit að ef ég spyr þá munu þeir segja 250 milljónir [evra],“ sagði Perez, sem segist eiga í góðu sambandi við Daniel Levy og félaga í æðstu stöðum hjá Tottenham:

„Við höfum eignast vini hjá Tottenham á þeim tíma sem það tók að kaupa Luka Modric og Gareth Bale sem báðir komu til okkar á lokadegi félagskiptaglugga. Við þróuðum með okkur gott samband og hann [Levy] segir alltaf við mig þegar við verðum Evrópumeistarar: „Takk fyrir að vinna Meistaradeildina með mínum leikmönnum“,“ sagði Perez.

Kane átti sinn þátt í marki Tottenham þegar liðið gerði 1:1-jafntefli við Real Madrid á Santiago Bernabéu í Meistaradeildinni fyrir skömmu en liðin mætast að nýju á Wembley hinn 1. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert