632 dagar liðnir frá síðasta marki

Saido Berahino tekur vítaspyrnu gegn Southampton en hún var varin …
Saido Berahino tekur vítaspyrnu gegn Southampton en hún var varin af Fraser Forster. AFP

Saido Berahino, framherji enska úrvalsdeildarliðsins Stoke City, hefur svo sannarlega gengið í gegnum erfiðan tíma á ferli sínum síðustu mánuðina.

Berahino, sem er 24 ára gamall, raðaði inn mörkunum fyrir WBA tímabilið 2015-16. Hann skoraði 20 mörk í öllum keppnum það tímabilið og var einn heitasti bitinn á markaðnum. Hann var valinn í enska landsliðshópinn og Tottenham reyndi að fá hann til liðs við sig en án árangurs.

WBA hafnaði tilboði í leikmanninn frá Tottenham á síðasta degi félagaskiptagluggans og það fór svo illa í Berahino að hann neitaði að spila með WBA-liðinu um tíma. Í febrúar 2016 skoraði hann sigurmark WBA gegn Crystal Palace en eftir það hófst markaþurrðin og stendur enn.

Stoke keypti Berahino frá WBA í janúar á þessu ári og fyrir leik liðsins gegn Brighton á útivelli í kvöld eru liðnir 632 dagar frá því Berahino skoraði síðast. Hann hefur spilað í 2.156 mínútur án þess að finna netmöskvana. Kannski tekst honum að brjóta ísinn í kvöld?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert