Leikmenn skammaðir á lestarstöðinni

Kevin Wimmer og Darren Fletcher, leikmenn Stoke, ásamt Dele Alli …
Kevin Wimmer og Darren Fletcher, leikmenn Stoke, ásamt Dele Alli hjá Tottenham í leik liðanna á laugardaginn. AFP

Margir stuðningsmenn enska knattspyrnuliðsins Stoke City nýttu gott tækifæri til að láta leikmenn liðsins heyra sínar skoðanir þegar þeir komu heim eftir ósigur gegn Tottenham, 5:1, í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Lið Stoke ferðast oft heim með lest eftir útileiki og eru leikmennirnir þá gjarnan í návígi við stuðningsmennina. Þegar lestin kom á endastöð í Stoke eftir leikinn á laugardaginn fengu leikmennirnir það óþvegið frá hópi stuðningsmanna á brautarstöðinni á meðan þeir gengu þar í gegn.

„Það er gott að við eigum leik aftur strax á þriðjudag því þetta verður enn glymjandi í eyrum þeirra. Við viljum nota þetta til að hvetja liðið. Sumir í okkar hópi hafa ekki upplifað svona lagað áður en nú hafa þeir gert það og eiga að geta nýtt sér það til að spila betur í næsta leik,“ sagði Mark Hughes, knattspyrnustjóri Stoke, en lið hans sækir Burnley heim í kvöld og er aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert