Stjórinn lofsyngur Jón Daða

Jón Daði Böðvarsson fagnar einu af þremur mörkum sínum í …
Jón Daði Böðvarsson fagnar einu af þremur mörkum sínum í leiknum umrædda. Ljósmynd/.readingfc.co.uk

Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur fengið gríðarlegt lof eftir að hann skoraði þrennu fyrir lið sitt Reading í enska FA-bikarnum fyrr í vikunni.

„Jón er leikmaður sem leggur alltaf gríðarlega hart að sér. Hann er sífellt að bæta sig og vill ólmur sýna hvað í sér býr,“ sagði Jaap Stam, hollenska varnarbrýnið sem er nú knattspyrnustjóri Reading. Og hann talaði vel um Selfyssinginn.

„Hann fékk tækifæri til þess að sanna sig í þessum leik og hann tók það með trompi. Hann skoraði ekki bara þrjú mörk heldur vann gríðarlega mikið fyrir liðið og pressaði andstæðinginn allan leikinn. Hann sýndi hvað hann getur þegar hann er ekki með boltann. Síðast en ekki síst var hann réttur maður á réttum stað í þrígang og ég verð að hrósa honum mikið,“ sagði Stam og var ekki hættur.

„Jón vill alltaf spila og er mjög jákvæður einstaklingur, viljugur til þess að gefa af sér. Þegar þú ert ekki með öruggt sæti í byrjunarliði þá þarftu að takast á við hlutina á þennan hátt,“ sagði Jaap Stam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert