Maður lítur út eins og bjáni

Juan Mata.
Juan Mata. AFP

Afar umdeilt atvik átti sér stað þegar Manchester United tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum enska bikarsins í knattspyrnu í kvöld með 2:0-sigri á Huddersfield.

Í stöðunni 1:0 skoraði Juan Mata að því er virtist löglegt mark fyrir United, en eftir mikla reikistefnu var það dæmt af vegna rangstöðu. Hafði þá verið gripið til hinna nýju reglna er leyfa myndbandadómgæslu. Við endursýningar má sjá að um afar umdeildan dóm er að ræða.

„Mér fannst þetta vera mjög þunn lína. Ég gerði það sem ég átti að gera, sem er að skora og fagna markinu. Svo þegar ég sá dómarann tala við einhvern þá lítur maður út eins og bjáni að vera að fagna þegar markið er svo dæmt af,“ sagði Mata eftir leik og gagnrýndi þá sérstaklega hversu langan tíma tekur að fá botn í málin.

„Ég er hlynntur myndbandadómgæslu því það er gott fyrir fótboltann á umdeildum stundum, en atvikið í dag virtist ekki liggja beint við. Niðurstaðan þarf að liggja fyrir mun fyrr, enda fagnaði ég einhverju sem skipti ekki máli,“ sagði Mata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert