Sendi 300 Liverpool-treyjur í heimabæinn

Sadio Mané.
Sadio Mané. AFP

Senegalinn Sadio Mané hefur gefið 300 Liverpool-treyjur til íbúa í heimabæ sínum Bambali svo þeir geti klæðst þeim þegar Liverpool leikur við Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Kænugarði annað kvöld.

„Það eru 2.000 íbúar í bænum. Ég keypti 300 Liverpool-treyjur sem ég sendi til fólksins í bænum svo það geti klæðst þeim þegar það horfir á úrslitaleikinn. Það verður enginn í vinnu á þessum degi. Ég ætla að fara til Bambali eftir heimsmeistaramótið og vonandi get ég sýnt öllum gullverðlaunapeninginn,“ sagði Mané við fréttamenn.

Foreldrar og frændfólk Mané búa enn í bænum og sjálfur bjó hann þar og sá Liverpool vinna dramatískan sigur á móti AC Milan í úrslitaleiknum um Evrópumeistaratitilinn árið 2005 en þá var Mané 13 ára gamall.

„Ég man eftir leiknum AC Milan og Liverpool, sem lenti 3:0 undir en jafnaði metin í 3:3 og vann í vítakeppni. Þessi leikur situr í minningunni,“ sagði Mané sem var stuðningsmaður Barcelona á þessum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert