Sterling heiðraður fyrir baráttu gegn kynþáttafordómum

Raheem Sterling.
Raheem Sterling. AFP

Raheem Sterling, leikmaður Manchester City og enska landsliðsins í knattspyrnu, fékk í kvöld heiðursverðlaun á árlegri hátíð breska íþróttaiðnaðarins sem haldin var í Battersea í London.

Hann var heiðraður fyrir framlag sitt í baráttunni gegn kynþáttafordómum í knattspyrnunni en Sterling hefur verið áberandi í þeirri umræðu undanfarin misseri.

Hann hefur sjálfur mátt þola kynþáttafordóma í leikjum með City og enska landsliðinu í vetur, m.a. gegn Chelsea á Stamford Bridge í úrvalsdeildinni og með enska landsliðinu í Svartfjallalandi í síðasta mánuði.

Sterling hefur gagnrýnt breska fjölmiðla fyrir hvernig þeir sýni hörundsdökka íþróttamenn og hefur kallað eftir harðari viðurlögum gegn þeim sem sýna af sér ósæmilega hegðun gagnvart fólki af öðrum kynþáttum.

„Við verðum að vera gott fordæmi fyrir næstu kynslóð,“ sagði Sterling þegar hann tók við verðlaununum.

„Þegar ég ólst upp hjá Liverpool hafði ég menn eins og Steven Gerrard í kringum mig og mitt takmark var að reyna að ná að verða hálfdrættingur á við hann sem persóna og leikmaður. Maður reynir að tileinka sér hlutina smátt og smátt og þroskast ár frá ári, ekki bara innan vallar heldur einnig utan hans,“ sagði Sterling.

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, afhenti honum verðlaunin. „Sterling hefur með sínum viðbrögðum haft gríðarleg áhrif á breskt þjóðfélag. Ég hef unnið með honum í ein fimm ár og það hefur verið ánægjulegt að sjá hann þroskast sem persónu eins og hann hefur gert. Það hefur hann gert sérstaklega undanfarið hálft ár og haft gríðarleg áhrif á þjóðfélagið sem heild,“ sagði Southgate.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert