Carroll gæti snúið aftur heim

Andy Carroll.
Andy Carroll. AFP

Enska knattspyrnufélagið Newcastle United íhugar að bjóða framherjanum Andy Carroll samning. Samningur Carroll við West Ham rann út eftir síðasta tímabil og er hann án félags. 

Carroll er uppalinn hjá Newcastle og skoraði hann 33 mörk í 91 leik með liðinu áður en Liverpool keypti hann fyrir 35 milljónir punda í janúar 2011. Þá var hann einn dýrasti leikmaður heims og dýrasti Englendingur sögunnar. 

Hann náði ekki að festa sig í sessi hjá Liverpool og var seldur til West Ham árið 2013. Þar hafa meiðsli verið að plaga hann lengi og ákvað félagið því ekki að semja við hann á ný. Nú er Carroll án félags, en leiðin gæti legið heim til Newcastle. 

Newcastle missti framherjana Salomon Rondon, Ayoze Pérez og Joselu í sumar. Félagið er að ganga frá kaupum á Joelinton fyrir 35 milljónir frá Hoffenheim, en Steve Bruce, nýráðinn knattspyrnustjóri liðsins, vill fleiri sóknarmenn áður en tímabilið fer af stað. 

Carroll er að glíma við ökklameiðsli sem stendur og að sögn Telegraph ætla forráðamenn Newcastle að bíða eftir að hann jafni sig á meiðslunum, áður en ákvörðun verður tekin um að bjóða framherjanum samning. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert