FIFA rannsakar mál hjá West Ham

Sébastien Haller, til vinstri, í leik með West Ham.
Sébastien Haller, til vinstri, í leik með West Ham. AFP

FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, hefur hafið rannsókn á kaupum enska félagsins West Ham á franska sóknarmanninum Sébastien Haller sem það keypti af Eintracht Frankfurt í Þýskalandi á síðasta ári.

Þýska félagið hefur kvartað yfir því að 5,4 milljónir punda af greiðslunni fyrir Haller hafi enn ekki skilað sér frá West Ham.

FIFA hefur staðfest að málið sé til rannsóknar en gefur ekki upp frekari upplýsingar um það að svo stöddu.

Sky Sports segir að samkvæmt heimildum úr röðum West Ham hafi greiðslunni verið frestað eftir að mál hafi komið upp á milli félaganna og unnið sé að lausn á því. Félagið muni ekki gefa neitt út um málið í bili.

Haller er 26 ára gamall og lék með Auxerre í Frakklandi og  Utrecht í Hollandi en síðan með Eintracht Frankfurt í tvö ár áður en West Ham keypti hann í júlí 2019 og hann varð þá dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins. Félagið mun hafa greitt 45 milljónir punda fyrir hann. Haller samdi til fimm ára en á yfirstandandi tímabili hefur hann skorað 7 mörk í 27 leikjum í úrvalsdeildinni og er markahæsti leikmaður liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka