Langþráður leikur hjá landsliðsmanninum?

Jóhann Berg Guðmundsson er búinn að vera frá keppni í …
Jóhann Berg Guðmundsson er búinn að vera frá keppni í hálft ár. Ljósmynd/Burnley

Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður í knattspyrnu gæti loksins spilað sinn fyrsta leik síðan um áramót þegar Burnley tekur á móti Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni á Turf Moor á sunnudaginn.

Jóhann meiddist í bikarleik 4. janúar og hefur glímt við þrálát meiðsli í kálfa frá þeim tíma en þau höfðu einnig plagað hann áður.

Sean Dyche knattspyrnustjóri Burnley sagði í dag að nú væri lokins komið að því að Jóhann gæti tekið einhvern þátt í leik liðsins.

„Jóhann hefur æft í nokkurn tíma með liðinu en við urðum að  gefa honum góðan tíma til að jafna sig því það voru alltaf að taka sig upp smá óþægindi sem við höfum verið að reyna að losa hann alveg við. En hann gæti átt möguleika á að taka einhvern þátt í leiknum," sagði Dyche en Jóhann hefur aðeins náð að spila sjö leiki með liðinu í deildinni í vetur.

Burnley hefur unnið tvo síðustu leiki sína, er komið í tíunda sæti og gæti með sigri á Sheffield United komist í sjöunda eða áttunda sætið. Leikur liðanna hefst klukkan 11 á sunnudaginn og er sýndur beint á Símanum Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert