Franskur miðjumaður til Englands

Morgan Sanson í leik Marseille og Porto í Meistaradeildinni í …
Morgan Sanson í leik Marseille og Porto í Meistaradeildinni í vetur. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa er að festa kaup á franska knattspyrnumanninum Morgan Sanson frá Marseille í heimalandinu fyrir um 15 milljónir punda.

Sanson er 26 ára miðjumaður sem hefur spilað fyrir Marseille undanfarin fjögur ár en þar áður var hann hjá Montpellier. Hann hefur alla tíð spilað í Frakklandi og á leiki að baki fyrir yngri landsliðin. Sky Sports segir frá því að kaupin séu nálægt því að ganga í gegn.

Aston Villa hefur ekki keypt leikmann í félagsskiptaglugganum en Dean Smith, knattspyrnustjóri liðsins, vill styrkja miðjuna og gefa liðinu betri möguleika á að berjast um Evrópusæti. Villa, sem mætir Newcastle í deildinni í kvöld, er með 26 stig í 11. sæti en á þó tvo leiki til góða á flest önnur lið eftir að fresta þurfti tveimur leikjum liðsins vegna kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka