Lykilmaður Liverpool í samningaviðræður

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP/Ben Stansall

Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah er á leið í samningaviðræður við forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool um nýjan samning.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en í frétt miðilsins kemur meðal annars fram að Richard Hughes, nýr íþróttastjóri félagsins, mun leiða viðræðurnar við Salah.

Salah, sem er 31 árs gamall, gekk til liðs við Liverpool frá Roma sumarið 2017 fyrir 37 milljónir punda en hann hefur skorað 210 mörk og lagt upp önnur 88 í 346 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.

Núgildandi samningur hans við Liverpool rennur út sumarið 2025 en hann hefur verið sterklega orðaður við félög í Sádi-Arabíu að undanförnu.

Liverpool hafnaði nokkrum himinháum tilboðum í Salah síðasta sumar frá félögum í Sádi-Arabíu en nú bendir allt til þess að hann verði áfram á Anfield.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert