Portúgalinn var búinn að samþykkja að taka við Liverpool

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Sporting Lissabon.
Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Sporting Lissabon. AFP/Patrícia de Melo Moreira

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Sporting Lissabon, var kominn langt með að taka við stjórnartaumunum hjá Liverpool þegar Sporting krafðist skyndilega tvöfalt hærri upphæðar frá Liverpool.

Christian Falk, íþróttafréttamaður hjá þýska miðlinum Bild og knattspyrnumiðlinum CaughtOffside, skrifar í síðarnefnda miðlinum að Amorim hafi verið búinn að samþykkja að taka við Liverpool í sumar.

Krafðist skyndilega 20 milljóna evra

Sporting var búið að samþykkja 10 milljón evra tilboð frá Liverpool í portúgalska stjórann, Amorim var búinn að samþykkja kaup og kjör og átti aðeins eftir að skrifa undir samninga.

Þá hafi forseti Sporting, Francisco Varandas, ákveðið að krefjast skyndilega 20 milljóna evra. Liverpool vildi ekki taka þátt í slíkum leik og því varð ekkert af ráðningunni.

„Það var svekkjandi fyrir Amorim, sem hefði elskað að verða arftaki Jürgens Klopps,“ skrifaði Falk.

Hollendingurinn Arne Slot staðfesti á fréttamannafundi í dag að hann taki við sem stjóri Liverpool í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert