Guðný spilar næstu þrjá leiki Vals

Guðný Björk Óðinsdóttir í leik með landsliði Íslands.
Guðný Björk Óðinsdóttir í leik með landsliði Íslands. mbl.is/Algarvephotopress

Guðný Björk Óðinsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur verið lánuð frá Kristianstad í Svíþjóð til Íslandsmeistara Vals og spilar næstu þrjá leikí í deild og bikar með Hlíðarendaliðinu.

Sænska úrvalsdeildin er í sumarfríi til 15. ágúst og því var þetta mögulegt. Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Kristianstad og fyrrum þjálfari Vals, staðfesti þetta á Fótbolta.net í dag.

Guðný er lögleg með Val frá og með morgundeginum og getur spilað gegn FH og Fylki í úrvalsdeildinni og gegn Þór/KA í undanúrslitum bikarkeppninnar áður en hún snýr aftur til Svíþjóðar um mánaðamótin.

Guðný lék með Val þar til hún gekk til liðs við Kristianstad í ársbyrjun 2009. Hún á 22 A-landsleiki að baki og hefur verið í byrjunarliðinu í fjórum síðustu landsleikjum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert