ÍBV tókst það sem KR tókst ekki

Eyjakonur komust í undanúrslit VISA-bikarsins en töpuðu þar fyrir Stjörnunni.
Eyjakonur komust í undanúrslit VISA-bikarsins en töpuðu þar fyrir Stjörnunni. mbl.is/Sigfús

Eyjamenn hafa samið við suður-afrísku knattspyrnukonuna Noko Matlou sem kjörin var besti leikmaður Afríku í febrúar 2009. Hún er þegar komin með leikheimild og má því leika með 1. deildarliðinu gegn Fjölni á fimmtudagskvöld.

Matlou hefur áður verið í fréttum hér á landi því í fyrra reyndi KR að fá hana til sín. Ekkert varð úr því en talið er að umboðsmaður Matlou hafi samið við KR án vitundar félagsins sem hún var þá hjá, Brazilian Ladies FC.

Matlou er sóknarmaður og varð meðal annars markahæst, ásamt öðrum leikmanni, á Afríkumóti landsliða árið 2008 þar sem hún skoraði sex mörk.

ÍBV ætlar sér að komast uppí úrvalsdeild í haust en liðið er í 2. sæti B-riðils í 1. deildinni á eftir Selfossi, með níu stiga forskot á næsta lið. Tvö efstu liðin í riðlinum fara í umspil við tvö efstu lið A-riðils, sem eru Þróttur R. og Keflavík, um tvö laus sæti í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert