Landsliðsþjálfari sakaður um hagræðingu úrslita

Javier Aguirre á blaðamannafundi í dag þar sem hann neitaði …
Javier Aguirre á blaðamannafundi í dag þar sem hann neitaði allri aðild að málinu. AFP

Javier Aguirre, landsliðsþjálfari Japans í knattspyrnu, sætir rannsókn vegna ásakana um að hafa átt þátt í að hagræða úrslitum þegar hann var knattspyrnustjóri Real Zaragoza á Spáni.

Umræddur leikur fór fram tímabilið 2010/2011 þegar Zaragoza lagði Levante, 2:1, á lokadegi tímabilsins, en sigurinn tryggði Zaragoza áframhaldandi veru í spænsku 1. deildinni.

Knattspyrnusamband Japans hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem sagt er að Aguirre verði áfram landsliðsþjálfari á meðan rannsóknin fari fram, en sjálfur hefur hann neitað allri aðild að málinu.

„Ég starfaði á Spáni í tólf ár og gerði aldrei neitt ósiðlegt eða ófagmannlegt. Ég vil segja stuðningsmönnum okkar að halda ró sinni yfir þessari rannsókn, við þurfum á stuðningi þeirra að halda,“ sagði Aguirre, en hann stjórnar Japönum í Asíubikarnum sem hefst í næsta mánuði.

Því er haldið fram að leikmönnum Levante hafi verið borgað 965 þúsund evrur, tæplega 150 milljónum króna, fyrir að tapa leiknum vísvitandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert