Ronaldo bregst bogalistin

Cristiano Ronaldo er farið að förlast í aukaspyrnum.
Cristiano Ronaldo er farið að förlast í aukaspyrnum. AFP

Það þykja nokkur tíðindi að knattspyrnugoðið Cristiano Ronaldo hefur ekki skorað beint úr aukaspyrnu í kappleik með Real Madrid í tíu mánuði. Spænska íþróttablaðið AS greinir frá þessu í dag. 

Blaðið segir að Ronaldo hafi ekki tekist að skora beint úr aukaspyrnu í 51 tilraun síðustu 10 mánuði en mörk beint úr aukaspyrnu hafa verið eitt „vörumerkja“ Portúgalans. Ronaldo mun síðasta hafa tekist að skora úr aukaspyrnu gegn Bayern München í undanúrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 29. apríl á síðasta ári. Síðast mun hann hafa skorað í deildarleik á Spáni 26. mars á liðnu ári. 

Af 51 aukaspyrnu, þar sem Ronaldo hefur brugðist bogalistin, heftur 21 hafnað í varnarvegg andstæðinganna, 14 farið yfir eða framhjá markinu en 16 spyrnur hafa verið varðar af markvörðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert