Rodgers: Býst við því að Sterling virði samninginn

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool.
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool á Englandi, er mættur á blaðamannafund fyrir lokaleik liðsins í úrvalsdeildinni, en hann ræddi þar samningamál Raheem Sterling.

Það hefur mikið verið rætt og ritað um samningamál Sterling undanfarnar vikur, en það færðist hiti í viðræðurnar í þessari viku er Aidy Ward, umboðsmaður hans, ræddi málin í viðtali við enska dagblaðið Standard Londoner.

Greindi hann þar frá því að Sterling myndi ekki framlengja samning sinn við Liverpool, jafnvel þó hann fengi 900 þúsund pund á viku. Liverpool ákvað í kjölfarið að aflýsa fundi með Ward, en sá fundur átti að fara fram í dag.

„Raheem lítur ekki út fyrir að vera óánægður. Hann er ungur drengur sem hefur þróað leik sinn ótrúlega vel undanfarin þrjú tímabil og vonandi heldur það áfram,“ sagði Rodgers.

„Málið er samt sem áður einfalt. Raheem á tvö ár eftir af samning sínum við Liverpool og ég býst við því að hann standi við gerða samninga og haldi áfram að haga sér á jafn fagmannlegan hátt og hann gerði þegar hann kom fyrst til félagsins."

„Samband mitt og Raheem er í góðu lagi. Hann hefur fengið tækifærið á því að leika með einu stærsta félagi heims og hefur hann gert það gríðarlega vel og nýtt það tækifæri  vel,“ sagði Rodgers ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert