Iniesta nýr fyrirliði Barcelona

Iniesta með fyrirliðabandið í æfingaleik gegn Fiorentina á dögunum.
Iniesta með fyrirliðabandið í æfingaleik gegn Fiorentina á dögunum. AFP

Leikmenn Barcelona kusu miðjumanninn Andres Iniesta sem nýjan fyrirliða liðsins. Tekur hann við bandinu af Xavi sem gekk í raðir Al Sadd í Katar fyrr í sumar. Lionel Messi verður varafyrirliði.

„Þessu fylgir mikil ábyrgð,“ sagði Iniesta við Mundo Deportivo um nýtt hlutverk sitt. „Að vera gerður að fyrirliða í aðalliðinu er mjög sérstakt og sérstaklega í augum þess sem hefur verið lengi í röðum félagsins. Ég vil ekki meina að það sé til einhver uppskrift að fyrirliða. Allir eru mismunandi og höndla aðstæðurnar á sinn hátt.“

Frá því að Iniesta lék sinn fyrsta leik fyrir Barcelona í október 2002 hefur hann spilað 603 leiki og skoraði í þeim 58 mörk. Á ferli sínum hefur hann unnið allt sem hægt er að vinna, bæði með félagsliði og landsliði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert