Guðjohnsenfeðgar á undan Schmeichelfeðgum

Eiður Smári Guðjohnsen og Arnór Guðjohnsen tóku þátt í sama …
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnór Guðjohnsen tóku þátt í sama landsleik árið 1996 þegar Eiður kom inná fyrir föður sinn. mbl.is/Bjarni J. Eiríksson

Kasper Schmeichel, markvörður Englandsmeistara Leicester og danska landsliðsins í knattspyrnu, er að vonum mikið í sviðsljósinu þessa dagana. Nú hefur hann fetað í fótspor Peters föður síns sem varð enskur meistari með Manchester United á sínum tíma.

Danska blaðið Politiken hefur tekið saman athyglisverða grein um feðga í fótbolta og kemst að þeirri niðurstöðu að Schmeichel-feðgarnir séu komnir í þriðja sæti yfir landsleikjahæstu feðgana í sögu heimsknattspyrnunnar.

Þeir eigi bara eftir að skáka íslensku Guðjohnsen-feðgunum og suðurkóresku Cha-feðgunum sem séu þeir leikjahæstu í heiminum.

Bum-Kun Cha er einn þekktasti knattspyrnumaður Suður-Kóreu fyrr og síðar og spilaði 135 landsleiki. Hann gerði það gott í Þýskalandi og vann UEFA-bikarinn með bæði Eintracht Frankfurt, árið 1980, og með Bayer Leverkusen árið 1988. Sonur hans, Du-Ri Cha varð skoskur meistari með Celtic árið 2012 og hefur spilað 74 landsleiki. Þeir eiga því samtals 209 landsleiki að baki.

Eiður Smári og Arnór Guðjohnsen koma næstir. Arnór lék 73 landsleiki fyrir Íslands hönd og Eiður er kominn með 84 leiki og þeirra leikir eru því orðnir 157 samtals.

Kasper Schmeichel er kominn með 20 landsleiki fyrir Dani en Peter faðir hans lék 126. Þeir eru því með 146 landsleiki, vantar ellefu til að ná Íslendingunum og þar sem Kasper er 29 ára gamall ætti hann að eiga mikla möguleika á því.

Þá gæti André Ayew, samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea, komið sér og föður sínum, Abédi Pelé, ofar á listann. Ayew er aðeins 26 ára en kominn með 69 landsleiki fyrir Gana. Abédi Pelé faðir hans var þrisvar kjörinn besti knattspyrnumaður Afríku.

Leikjahæstu feðgar heims, samkvæmt samantekt Politiken:

209 Bum-Kun Cha (135) og Du-Ri Cha (74), Suður-Kóreu
157 Arnór Guðjohnsen (73) og Eiður Smári Guðjohnsen (84), Íslandi
146 Peter Schmeichel (126) og Kasper Schmeichel (20), Danmörku
142 Abédi Pelé (73) og André Ayew (69), Gana
142 Cesare Maldini (14) og Paolo Maldini (128), Ítalíu
141 Olavi Litmanen (5) og Jari Litmanen (136), Finnlandi
135 Pierre Chapuisat (35) og Stéphane Chapuisat (100), Sviss
134 Periko Alonso (20) og Xabi Alonso (114), Spáni
132 Jean Djorkaeff (47) og Youri Djorkaeff (85), Frakklandi
130 Pablo Forlán (18) og Diego Forlán (112), Úrúgvæ

Peter Schmeichel, til hægri, á leik með Kasper syni sínum …
Peter Schmeichel, til hægri, á leik með Kasper syni sínum hjá Leicester. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert