Búnir að ná fínum tökum á liðinu

Rúnar Kristinsson og Arnar Þór Viðarsson.
Rúnar Kristinsson og Arnar Þór Viðarsson. Ljósmynd/Kristján Bernburg

„Ég er mjög ánægður og það er ánægjulegt að þetta sé frágengið,“ sagði Rúnar Kristinsson við mbl.is en Rúnar framlengdi í dag samning sinn við belgíska knattspyrnuliðið Lokeren en hann tók við þjálfun þess í lok október.

„Frá byrjun var það alltaf markmiðið að vera hér í einhvern tíma. Við vildum aðeins bíða og sjá til og sýna fram á árangur. Við byrjuðum að ræða þessi mál í desember og það er búið að liggja fyrir í töluverðan tíma að við myndum framlengja samninginn,“ sagði Rúnar, sem er nú samningsbundinn Lokeren fram til júní 2019.

Tókum við löskuðu liði

„Við erum búnir að ná fínum tökum á liðinu ég og Arnar Þór Viðarsson og náðum þeim strax í byrjun. Við sáum að við þurftum að leggja á okkur mikla vinnu. Við tókum við löskuðu liði sem var í næst neðsta sæti og var 12-15 stigum frá liðinu sem var í tíunda sætinu. Nú munar bara einu stigi og höfum náð að lyfta okkur lengra frá botninum og tryggja að liðið haldi sæti sínu í deildinni sem var forgangsmál númer eitt.

Nú erum við farnir að huga að næsta tímabili, undirbúa liðið og spá í breytingar sem við þurfum að gera á leikmannahópnum. Hvaða leikmönnum við ætlum að halda og hvaða leikmenn við látum fara. Við viljum byggja upp okkar lið og viljum nota það sem eftir er af tímabilinu til að hugsa til framtíðar,“ sagði Rúnar.

Arnar Þór verður áfram hægri hönd Rúnars en Rúnar er mjög ánægður með aðstoðarmann sinn.

„Arnar er samningsbundinn og verður áfram með mér. Það er gott að vera með Arnar. Hann er frábær og er búinn að reynast mér gríðarlega vel. Ég er ótrúlega ánægður að vinna með honum,“ sagði Rúnar.

Rúnar segir að belgískur fótbolti sé gríðarlega öflugur. „Gott dæmi um það er að þrjú belgísk lið eru komin í 16-liða úrslit í Evrópudeildinni. Margir Belgar eru að gera það gott í ensku úrvalsdeildinni, belgíska landsliðið er með þeim bestu í heimi og deildin er mjög sterk. Belgískur fótbolti hefur tekið gríðarlegum framförum síðustu 10-15 ár,“ segir Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert