Fór til Dortmund í stað Liverpool

Mahmoud Dahoud fer til Dortmund eftir leiktíðina.
Mahmoud Dahoud fer til Dortmund eftir leiktíðina. AFP

Þýska knattspyrnufélagið Borussia Dortmund hefur gengið frá samningi við þýska U21 landsliðsmanninn Mahmoud Dahoud, sem mun ganga til liðs við félagið frá Borussia Mönchengladbach í sumar. Dahoud hefur lengi verið orðaður enska félagið Liverpool. 

Samningur Dahoud við Mönchengladbach rennur út eftir leiktíðina, en kaupverðið er um 23 milljónir evra. Dahoud gerir fimm ára samning við Dortmund. 

Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool er talinn vera mikill aðdáandi Dahoud, en Dortmund voru fyrri til í baráttunni um að klófesta miðjumanninn. Dahoud hefur spilað 52 leiki í A-deild þýskalands og skorað í þeim sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert