Endurnefna völlinn til heiðurs Johan Cruyff

Ljósmynd af Johan Cruyff sem lögð var fyrir utan heimili …
Ljósmynd af Johan Cruyff sem lögð var fyrir utan heimili hans í Amsterdam eftir andlát hans í fyrra. AFP

Forráðamenn hollenska félagsins Ajax hafa ákveðið að endurnefna heimavöll liðsins. Hann heitir nú Amsterdam Arena, og er þjóðarleikvangur Hollands, en mun bera heitið Johan Cruyff Arena eftir breytinguna.

Cruyff hefði orðið sjötugur í gær, þriðjudag, en hann lést í mars í fyrra. Hann er einn dáðasti sonur félagsins eftir að hafa átt stórbrotinn feril. Cruyff ólst upp hjá Ajax frá unga aldri og var í röðum félagsins frá 1957 til 1973. Þegar hann fór þaðan til Barcelona hafði hann skorað 190 mörk í 240 deildaleikjum, unnið hollenska meistaratitilinn sex sinnum og hann var lykilmaður í liði Ajax þegar það varð Evrópumeistari þrjú ár í röð, 1971, 1972 og 1973.

Hann varð enn fremur fjórum sinnum hollenskur bikarmeistari með liðinu á þessum tíma, Ajax vann Stórbikar Evrópu árið 1972 og sama ár vann það meistarakeppni Evrópu og Suður-Ameríku. Hann sneri aftur til Ajax sem þjálfari árið 1985 og stýrði liðinu til 1988. Ajax varð hollenskur meistari 1986 og 1987 undir hans stjórn og vann UEFA-bikarinn 1987.

Cruyff hlaut Gullboltann, sem besti knattspyrnumaður heims, þrisvar sinnum á ferlinum en það var árin 1971, 1973 og 1974. Hann er almennt talinn í hópi þeirra fremstu í knattspyrnusögunni og var í landsliði Hollands sem lék til úrslita um heimsmeistaratitilinn í fyrsta skipti árið 1974 en beið lægri hlut fyrir Vestur-Þýskalandi. Cruyff var þá kjörinn besti leikmaður keppninnar.

Amsterdam Arena, sem verður endurnefndur Johan Cruyff Arena.
Amsterdam Arena, sem verður endurnefndur Johan Cruyff Arena. Ljósmynd/UEFA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert