Hallgrímur fór í fýluferð til Rússlands

Hallgrímur Jónasson í leik með Lyngby.
Hallgrímur Jónasson í leik með Lyngby. AFP

Knattspyrnumaðurinn Hallgrímur Jónasson var ekki í leikmannahópi danska liðsins Lyngby sem tapaði naumlega á útivelli fyrir rússneska liðinu Krasnodar, 2:1, í forkeppni Evrópudeildarinnar í gær. Ástæðan er sú að félagið gleymdi að setja nafn Hallgríms á lista yfir leikmenn liðsins sem sendur var til UEFA, en senda þarf leikmannalista fyrir hverja umferð í keppninni. Hallgrímur komst ekki að þessum mistökum fyrr en rétt áður en leikurinn átti að hefjast. 

„Þetta var algjört sjokk þegar ég komst að þessu inni í klefa fyrir upphitun. Þetta var svipað mikið högg í andlitið og þegar maður fékk að vita að maður færi ekki með á EM. Það er erfitt að lýsa tilfinningunum,“ sagði Hallgrímur í samtali við fotbolti.net í dag. 

Vegna mistakanna fær Hallgrímur að öllum líkindum ekki að spila síðari leikinn sem verður í Danmörku á fimmtudaginn kemur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert