Ögmundur settur út úr liðinu

Ögmundur Kristinsson.
Ögmundur Kristinsson. mbl.is/Golli

Ögmundur Kristinsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, hefur verið settur úr úr liði Hammarby í Svíþjóð eftir að hafa spilað hvern einasta deildarleik síðan hann kom til félagsins frá Randers sumarið 2015.

Ögmundur hefur spilað 61 deildarleik í röð í markinu hjá Stokkhólmsliðinu en hann mun ekki standa á milli stanganna á morgun þegar það heimsækir Jönköping í sautjándu umferð deildarinnar.

Johan Wiland, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Svía, er kominn í raðir Hammarby, fékk leikheimild í dag, og þjálfarinn Jakob Michelsen sagði við Expressen að hann færi beint í liðið fyrir leikinn gegn Jönköping.

„Hann verður í byrjunarliðinu. Við þurfum menn með karakter og reynslu í liðið og Johan hentar okkur geysilega vel. Hann er með útgeislun sem mun hjálpa liðinu,“ sagði Michelsen, og kvaðst hafa gefið Ögmundi frí til að skoða sín mál.

„Þar sem þetta gerðist allt mjög hratt þá höfum við gefið honum frí í dag og á morgun svo hann getið notað tímann til að ræða við umboðsmanninn sinn og hugsa um sjálfan sig. Hann er í nýrri og óvæntri stöðu og því tökum við hann ekki með á morgun,“ sagði Michelsen.

Hammarby er í níunda sæti af sextán liðum í sænsku úrvalsdeildinni en aðeins fjórum stigum á eftir AIK sem er í öðru sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert