Kolbeini standa allar dyr opnar

Kolbeinn Sigþórsson í búningi Nantes, eða kanarífuglanna eins og liðið …
Kolbeinn Sigþórsson í búningi Nantes, eða kanarífuglanna eins og liðið er jafnan kallað í Frakklandi. AFP

Læknisskoðun landsliðsmannsins Kolbeins Sigþórssonar, leikmanns franska knattspyrnuliðsins Nantes í Frakklandi, gekk nokkuð vel og hefur hann þegar hafist handa við næsta skref í endurhæfingarferli sínu og mun því verða sjáanlegri í herbúðum Nantes á næstunni.

Kolbeinn er að jafna sig eftir alvarleg hnémeiðsli sem hafa haldið honum frá knattspyrnuvellinum frá því í ágúst 2016 en Kolbeinn er samningsbundinn franska liðinu til ársins 2020.

Kolbeinn er ekki enn tilbúinn til þess að snúa aftur á æfingar með liðsfélögum sínum en hinn ítalski Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Kolbeins, segist vonast til þess að landsliðsmaðurinn komist á ný í form. Þetta kemur fram í frönskum miðlum í dag - m.a. fanska stórblaðinu L’Equipe.

Ranieri ræddi við fréttamenn í dag og talaði um stöðuna á Kolbeini.

„Hann hefur mikla reynslu. Ég vona að hann komist í stand. Ef hann vill berjast fyrir okkur standa honum allar dyr opnar,” er haft eftir Ranieri á heimasíðu L’Equipe.

„Hann er góður skotmaður og er góður í loftinu. Ef hann er reiðubúinn til þess að svitna og vinna sér inn stöðuna í liðinu þá stend ég með því,” sagði Ranieri.

Ekki kom fram hvenær búist er við því að Kolbeinn verði klár í slaginn en hann vonast til þess að verða í landsliðshópnum sem fer á HM í Rússlandi næsta sumar.

Nantes birti einnig í dag myndir af kappanum á æfingu og sjást þær hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert