Ronaldo skaut Salah ref fyrir rass

Cristiano Ronaldo fagnar sigurmarkinu gegn Egyptum.
Cristiano Ronaldo fagnar sigurmarkinu gegn Egyptum. AFP

Cristiano Ronaldo skoraði í tvígang í uppbótartíma til að tryggja Portúgal 2:1-sigur á Egyptalandi í vináttuleik þjóðanna í knattspyrnu í gær.

Egyptar höfðu tekið forystuna í Zürich þegar Liverpool-maðurinn Mohamed Salah skoraði enn eitt markið sitt á tímabilinu á 56. mínútu en Madrídingurinn átti eftir að eiga síðasta orðið.

Á annarri mínútu uppbótartímans jafnaði Ronaldo metin og tveimur mínútum síðar skoraði hann aftur með skalla. Seinna markið var fyrst ekki gefið sökum rangstöðu en myndbandsdómarinn komst að því að markið var löglegt.

Portúgalar mæta Spánverjum í sannkölluðum risaslag í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins í Rússlandi en Egyptar hefja keppni gegn Úrúgvæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert