Gunnhildur lagði upp sigurmarkið - myndskeið

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og samherjar í Utah Royals fagna marki.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og samherjar í Utah Royals fagna marki. Ljósmynd/Utah Royals

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, lagði upp sigurmark Utah Royals í kvöld þegar lið hennar vann Houston Dash, 1:0, í bandarísku atvinnudeildinni, NWSL, á heimavelli sínum í Sandy í Utahríki.

Markið kom á 51. mínútu þegar Erika Tymrak skoraði eftir sendingu Gunnhildar sem fékk boltann á eigin vallarhelmingi, lék upp allan hægri kantinn og upp að vítateignum áður en hún renndi boltanum þvert fyrir vítateiginn á Tymrak sem skoraði með viðstöðulausu skoti. Markið má sjá hér fyrir neðan. Gunnhildur spilaði allan leikinn.

Utah Royals, sem er nýtt lið í deildinni, er í fimmta sæti með 11 stig eftir 8 leiki og hefur aðeins tapað einum leik en hinsvegar gert fimm jafntefli og þetta var annar sigurinn. Gunnhildur hefur sjálf skorað eitt mark en það var fyrsta markið í sögu liðsins í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert