Viðar varð næstmarkahæstur

Viðar Örn Kjartansson skoraði gegn KR í Evrópudeild UEFA í …
Viðar Örn Kjartansson skoraði gegn KR í Evrópudeild UEFA í upphafi keppnistímabilsins og er hér í baráttu við Aron Bjarka Jósepsson á Alvogen-vellinum. mbl.is/Árni Sæberg

Viðar Örn Kjartansson varð næstmarkahæsti leikmaður ísraelsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á keppnistímabilinu sem lauk í kvöld.

Viðar kom ekkert inn á í útisigri Maccabi Tel Aviv á Bnei Yehuda, 2:0, í lokaumferðinni í kvöld en hann endaði með 13 mörk í 30 leikjum fyrir liðið í deildinni á tímabilinu. Með sigrinum tryggði Maccabi sér silfurverðlaunin í deildinni, þremur stigum á undan Beitar Jerusalem, en Hapoel Beer Sheva var búið að tryggja sér meistaratitilinn og fékk 80 stig gegn 71 hjá Maccabi og 68 hjá Beitar.

Viðar skoraði 11 mörk í aðalhluta deildarinnar í vetur, þegar liðin fjórtán léku tvöfalda umferð, og var þá í öðru sæti markalistans. Sex efstu liðin spiluðu síðan áfram innbyrðis tvöfalda umferð, tíu leiki á lið, og þó Viðar næði aðeins að skora tvö mörk til viðbótar nægði það honum í annað sætið. Dia Seba frá Maccabi Netanya var hins vegar langmarkahæsti leikmaðurinn í deildinni með 24 mörk.

Viðar varð markakóngur deildarinnar í fyrra og skoraði þá 19 mörk. Hann skoraði þó samtals 21 mark fyrir Maccabi Tel Aviv á þessu tímabili en fjögur markanna komu í Evrópudeild UEFA og fjögur í ísraelsku bikarkeppninni. Í fyrra voru mörkin samtals 24 með bikar og Evrópuleikjum meðtöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert