„Frábært tækifæri“

Sigríður Lára Garðarsdóttir er genginn til liðs við Lilleström í …
Sigríður Lára Garðarsdóttir er genginn til liðs við Lilleström í Noregi. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigríður Lára Garðarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er þessa dagana að koma sér fyrir í Lilleström, 12.500 manna bæ í nágrenni Óslóar, þar sem hún mun spila fótbolta með besta liði Noregs næstu mánuði. Sigríður Lára kemur til Lilleström frá ríkjandi bikarmeisturum ÍBV og gerði samning við félagið sem gildir til áramóta og verður svo endurskoðaður.

„Þetta verður krefjandi en skemmtilegt. Ég hef stefnt að þessu lengi og hef alltaf ætlað mér að taka skref upp á hærra stig. Þetta er toppliðið í Noregi, þjálfarinn er mjög góður og það er allt mjög fagmannlegt í kringum liðið. Hópurinn er í raun frekar fámennur en leikmennirnir allir sterkir og það er því gott „tempó“ á æfingum. Þetta er frábært tækifæri fyrir mig,“ segir Sigríður við Morgunblaðið. Þjálfarinn sem hún nefnir, Hege Riise, er leikjahæsta landsliðskona í sögu Noregs og hefur hún stýrt Lilleström frá árinu 2011, með afburðagóðum árangri sem fyrr segir.

Gott að geta sótt ráð frá Heimi

Annað norskt félag sýndi því einnig áhuga að fá Sigríði Láru til sín, sem og félag í Svíþjóð, en Eyjamærin valdi Lilleström eftir að hafa ráðfært sig við fólk sem þekkir félagið vel. Hún ræddi meðal annars við Sigurð Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara kvenna, og Írisi Björk Eysteinsdóttur, sem bæði þjálfuðu hjá félaginu. Hún hefði einnig getað ráðfært sig við Guðbjörgu Gunnarsdóttur landsliðsmarkvörð, sem varð tvöfaldur meistari með Lilleström bæði 2014 og 2015.

„Ég talaði við Írisi Björk og Sigga Ragga og þau höfðu bara góða hluti að segja um klúbbinn. Heimir Hallgríms [fyrrverandi landsliðsþjálfari karla] hefur líka hjálpað mér mjög mikið og gefið mér ýmis góð ráð. Það er gott að geta fengið ráð frá honum,“ segir Sigríður Lára lauflétt í bragði.

Viðtalið við Sigríði Láru má sjá í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert