Ættum að vera stoltir

Virgil van Dijk fagnar marki sínu.
Virgil van Dijk fagnar marki sínu. AFP

Eftir mögur undanfarin ár virðist vera að birta til hjá hollenska karlalandsliðinu í knattspyrnu en það tryggði sér í gærkvöld sæti á „Final Four“ í Þjóðadeild UEFA.

Hollendingar tryggðu sér efsta sæti í riðli 1 í A-deildinni og urðu fyrir ofan heimsmeistara Frakka og Þjóðverja, sem féllu í B-deildina. Virgil van Dijk miðvörðurinn frábæri í lið Liverpool var hetja Hollendinga en hann jafnaði metin í 2:2 á lokamínútum leiksins en jafnteflið tryggði Hollendingum sigurinn í riðlinum.

„Við ættum allir að vera stoltir af sjálfum okkur og ég veit að ég er það. Við leggjum svo hart að okkur í hverjum leik og að fá verðlaun fyrir það er frábært,“ sagði Van Dijk eftir leikinn en Hollendingar, Svisslendingar, Englendingar og Portúgalar leika um sigur í Þjóðadeildinni í Portúgal í júní á næsta ári.

Eftir að hafa misst af tveimur stórmótum í röð, EM 2016 og HM 2018, segir Van Dijk aðalmarkmiðið að koma Hollendingum á EM 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert