Fyrsta markið eftirminnilegast (myndskeið)

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Lionel Messi skoraði sitt 400. mark fyrir Barcelona í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu um síðustu helgi eins og áður hefur komið fram hér á mbl.is.

„Ég er stoltur af því að hafa náð að skora 400 mörk og vonandi get ég skorað nokkur fleiri,“ segir Argentínumaðurinn í viðtali við spænska blaðið Mundo Deportivo.

„Ég hugsa ekki mikið um met eða tölur. Ég lít á hvern leik sem áskorun sem ég reyni að vinna frekar en að skora mörk. Ég reyni að hjálpa liðinu, ekki bara með því að skora mörk heldur að leggja þau upp eða taka hlaup sem opna leið fyrir félaga mína. Það er alveg á hreinu að án aðstoðar frá liðsfélögum mínum nú og áður þá hefði verið ómögulegt fyrir mig að skora 400 mörk,“ segir Messi.

Messi segir að fyrsta markið sem hann skoraði fyrir Barcelona sé líklega það eftirminnilegasta.

„Fyrsta markið sem ég skoraði á móti Albacete eftir sendingu frá Ronaldinho er mark sem ég gleymi aldrei,“ segir Messi en fyrsta mark hans fyrir Barcelona má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert