Víkingaklappið vinsælt í Asíubikarnum (myndskeið)

HÚH! Víkingaklappið ómaði reglulega um Spartak-leikvanginn meðan Íslendingar og Argentínumenn …
HÚH! Víkingaklappið ómaði reglulega um Spartak-leikvanginn meðan Íslendingar og Argentínumenn öttu kappi á HM í fyrra. Eggert Jóhannesson

Víkingaklappið er orðið frægt um allan heim en það sló eftirminnilega í gegn á Evrópumótinu í Frakklandi árið 2016 þar sem íslenskir stuðningsmenn stálu senunni.

Fréttaveitan AFP greinir frá því að víkingaklappið sé nú orðið mjög vinsælt á leikjum Asíubikarsins sem fram fara í Sameinuðu arabískum furstadæmunum og það hafi verið tekið í gríð og erg hjá stuðningsmönnum Kína, Indlands, Taílands, Líbanon og Írans.

Sunil Chhetri, fyrirliði indverska landsliðsins og samherjar hans, tóku víkingaklappið eftir 4:1 sigur gegn Taílandi í Abu Dhabi og fleiri lið hafa gert slíkt hið sama.

„Það gerir þetta enginn eins og við gerum það en það er mjög flott að fleiri þjóðir séu að nota það til að styðja við bakið á sínum liðum,“ segir Hilmar Jökull Stefánsson, liðsmaður Tólfunnar, stuðningsmannaliðs íslensku landsliðanna í fótbolta, í samtali við AFP.

„Við erum bara örlítið land og við reiknum ekki með því að einhverjir séu að leika sama leik og við, sérstaklega lönd sem eru meira en milljarð íbúa,“ segir Hilmar Jökull.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá leikmenn Indlands taka víkingaklappið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert