Deschamps ánægður með sína menn

Antoine Griezmann skoraði eitt af mörkum Frakka.
Antoine Griezmann skoraði eitt af mörkum Frakka. AFP

Didier Deschamps, þjálfari frönsku heimsmeistaranna í knattspyrnu, var ánægður með leik sinna manna gegn Íslendingum í gærkvöld.

Frakkar hrósuðu 4:0 sigri og eru með fullt hús stiga í riðlinum eftir tvær umferðir.

„Það var markmið okkar að taka sex stig út úr þessum leikjum,“ sagði Deschamps eftir leikinn en hann hrósaði skilvirkni sinna manna gegn varnarmúr íslenska liðsins.

„Þegar mótherjinn spilar mjög varnarsinnað þá getur verið erfitt að finna leiðina svo þetta var gott,“ sagði Deschamps, sem var ánægður með sóknarlínuna Kylian Mbappe, Antoine Griezmann og Oivier Giroud sem allir skoruðu í leiknum.

Giroud skoraði sitt 35. mark fyrir franska landsliðið og er þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu þess á eftir Thierry Henry (51) og Michel Platini (41).

„Hann spilar ekki mikið með félagsliði sínu en hann kemur með eitthvað öðruvísi en hinir tveir framherjarnir og skilar svo sannarlega sínu,“ sagði Deschamps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert