Gleymdi eigin treyjunúmeri (myndskeið)

Tiémoué Bakayoko er samningsbundinn enska úrvalsdeildarliðinu Chelsea.
Tiémoué Bakayoko er samningsbundinn enska úrvalsdeildarliðinu Chelsea. AFP

Knattspyrnumaðurinn Tiémoué Bakayoko hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann gekk til liðs við Chelsea frá Monaco árið 2017. Hann heillaði fáa með spilamennsku sinni á sínu fyrsta tímabili með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni og var lánaður til AC Milan á síðustu leiktíð.

Hann er í dag lánsmaður hjá franska fyrstudeildarliðinu Monaco og hefur hann byrjað tíu leiki í deildinni þar sem hann hefur lagt upp eitt mark. Bakayoko var í byrjunarliði Monaco sem vann 3:0-heimasigur gegn Amiens í frönsku 1. deildinni um helgina.

Á 80. mínútu ákvað Leonardo Jardim, þjálfari Monaco, að gera breytingu á liði sínu. Jardim kallaði leikmann númer 14 af velli og ætlaði Bakayoko þá að ganga af velli. Miðjumaðurinn lék í treyju númer 14 áður en hann gekk til liðs við Chelsea sumarið 2017.

Hann leikur hins vegar í treyju númer 6 í dag en virtist vera búinn að gleyma því, við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna. Monaco er í ellefta sæti deildarinnar með 24 stig eftir sautján umferðir, þremur stigum frá Evrópusæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert